Ágúst Borgþór Sverrisson

„Þó að veikindi bróður míns hafi lagt undir sig heimilislífið er hann orðinn enn fyrirferðarmeiri eftir að hann dó.“
(Sumarið 1970)

Ágúst Borgþór Sverrisson er fæddur 19. nóvember 1962 í Vesturbæ Reykjavíkur og ólst þar upp til átján ára aldurs. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1983. Hann stundaði þýsku- og bókmenntanám einn vetur í Berlín og annan í München. Árin 1990-1992 lærði hann heimspeki við Háskóla Íslands.

Starfsferill Ágústs Borgþórs hefur að miklu leyti einkennst af skrifum, t.d. blaðamennsku og kynningarskrifum. Hann hóf slíkan feril hjá Miðlun ehf. árið 1989, starfaði síðan sem prófarkalesari og textasmiður á Íslensku auglýsingastofunni og vinnur nú hjá þýðingastofunni Skjali. Hann hefur auk þess haldið námskeið í smásagnaskrifum.

Ágúst Borgþór hóf að birta sögur í skólablöðum í M.R. en árið 1987 fékk hann birta smásöguna „Saknað“ í Tímariti Máls og menningar. Á þeim árum vann hann að sögum fyrir fyrsta smásagnasafn sitt og ljóðabókina Eftirlýst augnablik. Töluvert hlé varð á skrifum eftir þetta en segja má að samfelld smásagnaskrif hefjist árið 1993. Ágúst Borgþór hefur nú sent frá sér fimm smásagnasöfn en síðasta safn hans er Tvisvar á ævinni sem kom út haustið 2004. Þá hefur hann gefið út tvær nóvellur, Hliðarspor (2007) og Stolnar stundir (2011). Auk þess hafa verk hans birst í safnritum og tímaritum auk þess sem hann hefur verit ötull bloggari um langt árabil og birt fjölda pistla á þeim vettvangi. Ágústi hafa hlotnast viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Strik.is 2001. 

Útgefandi: Sögur.

Pistill frá Ágústi Borgþóri

Allt frá því snemma á barnsaldri lét ég mig dreyma um að geta sjálfur skapað það sem ég hreifst af. Þetta gilti um knattspyrnu, kvikmyndir, skák og ýmislegt fleira. Þetta voru langsóttir draumar og ekkert umfram það.

Þegar bókmenntaáhuginn vaknaði fyrir alvöru um 16 ára aldur beit ég það hins vegar í mig, af einhverjum ástæðum, að ég gæti skrifað. Þegar ég um þetta leyti sökkti mér niður í Þórberg og Laxness í fyrsta skipti var ég hins vegar jafnfjarri því að geta búið til bókmenntir og að láta fyrri drauma mína um afreksverk rætast. Samt var ég sannfærður og hef verið það síðan. Fyrir þessu voru tvær ástæður. Sú veigaminni að á meðan ég var alltaf lélegur í fótbolta, sýndi lítil merki um tónlistarhæfileika og var ekki góður í skák (ég læt kvikmyndirnar liggja á milli hluta, áhuginn á þeim hvarf reyndar um leið og bókmenntaáhuginn vaknaði), þá varð ég snemma ágætlega ritfær. Veigameiri ástæðan  var sú að bókmenntaþráin var af allt öðrum toga en aðrir æskudagdraumar, hún var mun djúpstæðari og sameinaðist með einhverjum hætti, sem ég get ekki útskýrt, allri annarri lífsþrá og hamingjuþrá í brjóstinu.

Ágætur rithöfundur skrifaði í blaðagrein að hégóminn fylgdi sköpuninni eins og skugginn. Eflaust eru listamenn misjafnlega hégómagjarnir en það er alveg ljóst að löngun eftir því að sjá nafn sitt í blöðunum í virðingarverðu samhengi, sjá sögu eftir sig á prenti eða bók á búðarborði, á sinn þátt í þeim drifkrafti og úthaldi sem þarf til að fullvinna frambærilegt skáldverk. Það er stundum erfitt að greina hvar sköpunarþráin endar og hégóminn tekur við, þörfin fyrir að skrifa virðist alltaf jafndjúpstæð, einlæg og óháð öllu veraldargengi, en oftast er skrifað með væntanlega birtingu eða útgáfutímabil í huga og hinn veraldlegi metnaður rennur saman við tjáningarþörfina.

Ég býst við að margir hafi tilhneigingu til að líta hverju sinni á nútíðina í lífi sínu sem ákveðin tímamót. Það gildir a.m.k. um mig og nú finnst mér ákveðin skil hafa orðið á rithöfundarferli mínum þegar ég hugsa til þeirra fimm smásagnasafna sem eru að baki, bóka sem eiga afar margt sameiginlegt. Þetta eru hátt í 50 útgefnar smásögur sem örfáir lesendur hafa orðið svo elskulega naskir að sjá út úr heildstæðan sögu- og merkingarheim. Mér finnst ákveðnu tímabili vera lokið á ferli mínum og þó að næstu bækur mínar eigi vafalaust eftir að bera merki fyrri verka hefur endapunkturinn verið settur aftan við ýmis viðfangsefni.

Og núna, þegar ég tel að nýr kafli í höfundarsögu minni sé að hefjast, spyr ég mig stundum að því hvers vegna ég skrifi. Með öðrum orðum: Hvers vegna eyði ég frítíma mínum í ritstörf? Svörin eru ekki lengur jafn hástemmd og í upphafi, þegar ég kunni ekki neitt en var uppfullur af rómantískum belgingi og háleitum fyrirheitum. Ég er kominn yfir fertugt og lifi að mörgu leyti þægilegu lífi þó að annir geti verið miklar. Ég er í góðu starfi, á góða fjölskyldu, bý við öruggi og nokkuð traustan fjárhag. Líklega er ég á hátindi ævinnar og veit að eftir tíu ár eða svo tekur eitthvað að draga úr atorku. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að heimurinn stendur ekki og fellur með því hvort ég skrifa fleiri bækur. Vel mætti halda því fram að það skipti sáralitlu máli hvort ég geri það eða ekki. Ég gæti eytt orkunni sem fer í skriftir og hugleiðingar um skáldskap í eitthvað annað: t.d. komist í enn betra starf eða arðbærari aukavinnu og orðið efnaðri. Ég gæti líka lært á hljóðfæri, gengið í frístundahljómsveit og spilað uppáhaldslögin mín með henni. 

Núorðið segi ég reyndar stundum við sjálfan mig og aðra að ég skrifi til að þurfa ekki að smíða sólpalla og skjólveggi. Vinur minn sýndi mér um daginn afraksturinn af löngu streði sínu á lóðinni. Hann hafði jafnt með eigin höndum sem fyrir tilstilli iðnaðarmanna komið upp glæsilegum sólpalli, skjólvegg og heitum potti í garðinum sínum. Ég var ánægður fyrir hans hönd en hugsaði jafnframt með hryllingi til þess að eyða mínum eigin tíma í slíkan þrældóm fyrir utan það að ég er langt frá því að hafa nægilegt verkvit í svona lagað. Ég get ekki með nokkurri sannfæringu haldið því fram að bækurnar mínar séu merkilegri en sólpallur og skjólveggur vinar míns. Hann yrði raunar líka rekinn á gat ef hann reyndi að halda hinu gagnstæða fram og kjánaleg rimman myndi enda með jafntefli.

Ég veit hins vegar að ég er betur fallinn til orðsmíða en trésmíða. Umfram allt vil ég eyða þessari stuttu ævi í það sem hugur minn stendur til. Það er til fólk sem hlakkar til að lesa fleiri bækur eftir mig. Því fer jafnvel dálítið fjölgandi. Ég veit að það vill frekar vita af mér fyrir framan tölvuna en í einhverjum ósköpum sem ég ræð ekki við og hef þar að auki engan áhuga á. Það vill geta gripið í sögu eftir mig á meðan það hvílir sig á sólpallinum sínum. Þessu góða fólki mun verða að ósk sinni.

Ágúst Borgþór Sverrisson, 2005.

Um smásagnagerð Ágústs Borgþórs Sverrissonar

Í skáldskap sínum hefur Ágúst Borgþór Sverrisson svo gott sem eingöngu fengist við smásagnagerð ef frá er talið fyrsta útgefna verk hans, ljóðabókin Eftirlýst augnablik (1987). Í kjölfar þessarar ljóðabókar hafa svo fylgt fimm smásagnasöfn, með nokkuð jöfnu millibili, Síðasti bíllinn (1988), Í síðasta sinn (1995), Hringstiginn (1999), Sumarið 1970 (2001) og Tvisvar á ævinni (2004). Með þessari ríku áherslu á smásöguna skapar hann sér nokkra sérstöðu í íslensku samhengi því fáir höfundar síðari ára hafa lagt jafn mikla rækt við smásagnagerð.

Sem bókmenntaform er smásagan ekki ýkja gömul, a.m.k. í þeim búningi sem við þekkjum hana í dag, þótt rætur hennar liggi vissulega langt aftur í aldir í formi stuttra frásagna, á borð við goðsögur og ævintýri. Þrátt fyrir þessar djúpu rætur er gjarnan talað um að smásagan verði til sem nútímabókmenntaform á 19. öld þegar stuttar skáldaðar frásagnir tóku talsverðum stakkaskiptum. Í grófum dráttum má segja að á síðari hluta 19. aldar megi greina tvær meginlínur í þróun smásögunnar. Annarsvegar sögur sem hafa hefðbundna þrískipta byggingu í ætt við þá sem Aristóteles setti fram í fornöld, þ.e.; kynning aðstæðna, flækja og lausn. Oft er þessi lína sett í samhengi við smásagnagerð Bandaríkjamannsins Edgar Allan Poe og Frakkans Guy de Maupassant. Hinni línunni tilheyra hinsvegar sögur sem ganga í raun í berhögg við hina hefðbundnu þrískiptu byggingu og leitast frekar við að bregða upp svipmyndum af hversdagslífi þar sem smávægilegir hlutir og aðstæður hljóta táknræna merkingu sem varpar ljósi á stærra samhengi. Gjarnan er þessi lína kennd við rússneska skáldið Anton Tsjekhov sem hafði gríðarleg áhrif á smásagnagerð á nítjándu- og tuttugustu öld. [Um þessa tvískiptingu smásögunnar; sjá t.d: Rúnar Helgi Vignisson: „Eftirmáli“, Uppspuni. Nýjar íslenskar smásögur, ritstj. Rúnar Helgi Vignisson, Reykjavík: Bjartur 2004, bls. 148-149. Eileen Baldeshwiler: „The Lyric Short Story“, The New Short Story Thories, ritstj. Charles E. May, Athens: Ohio University Press 1994, bls. 231.]

Smásögur Ágústs Borgþórs tilheyra bersýnilega þessari síðarnefndu línu. Enda má í stuttu máli segja að höfundarverk hans, ef litið er á það í heild sinni, fjalli um fjölbreytileika hversdagsins. Hið óvenjulega í hinu venjulega, margslunginn einfaldleika í lífi venjulegs fólks. Einfaldir, hversdagslegir hlutir og vandamál fá merkingu sem ekki liggur í augum uppi við fyrstu sýn. Miðaldra karlmenn, ungar konur, einstæðar mæður og börn eru helstu söguhetjurnar í bókum Ágústs Borgþórs. Venjulegt fólk sem starfar við hversdagslega hluti; á lagerum, í mötuneytum, skrifstofum, við skúringar og akstur. Stundum hafa þessar persónur orðið undir í lífinu, á einn eða annan hátt, og því má einnig, að nokkru leyti, setja sögur Ágústs Borgþórs í samhengi við hið svokallaða smælingjaminni sem lengi hefur fylgt smásögunni. Þetta kann að hljóma átakalítið, jafvel óspennandi, en spenna slíkra sagna byggir ekki á hefðbundnum þrískiptum frásagnarmáta eins og fyrr sagði, heldur liggur hún undir yfirborðinu, jafnvel í fábreytileika og fásinni hversdagsins.

Í sögum Ágústs Borgþórs er brugðið upp myndum, brotabrotum úr lífi persónanna sem móta þær jafnvel fyrir lífstíð. Örskotsmyndir úr fortíð og æsku skjóta upp kollinum í samhengi við atburði í núinu. Stundum rekast fortíð og nútíð saman á harkalegan hátt líkt og um tvo heima sé að ræða. Sagan „Fyrsti dagur fjórðu viku“ úr safninu Tvisvar á ævinni (2004) segir frá atvinnulausum manni í vinnuleit. Maðurinn hefur neyðst til að selja bílinn sinn og af þeim sökum þarf hann að ferðast með strætisvagni. Í fyrstu kann þetta að virðast skipta harla litlu máli. En í þessu fyrirbæri, strætisvagninum sameinast fjöldi brota úr lífi mannsins, bæði í fortíð og nútíð:

Síðast þegar hann fór ferða sinna með stætó voru vagnarnir grænir. Þá voru þeir líka drekkhlaðnir farþegum, fólki á leið í og úr vinnu, skólanemum, fínum frúm. Stundum var loftið í vögnunum mettað fiskilykt vegna starfsfólks í frystihúsunum sem hafa fyrir löngu týnt tölunni í borginni.

Núna er eins og hann stígi inn í fáfarna hliðarveröld: í vagninum eru þrír Ausutrlandabúar og ungur maður sem talar hástöfum við sjálfan sig (bls. 19-20).

Í þessari lýsingu á upplifun mannsins af strætisvagninum felst fjölmargt sem snýr að ævi mannsins sjálfs, stöðu hans í þjóðfélaginu og þeim breytingum sem orðið hafa á þessu sama þjóðfélagi. Allt þetta speglast í strætisvögnunum því breytt hlutverk þeirra verður táknrænt fyrir stöðu mannsins. Vagnarnir eru ekki lengur vettvangur þar sem allir þjóðfélagshópar mætast heldur tilheyra þeir heimi þeirra sem eru utanveltu í þjóðfélaginu. Þessi heimur var manninum hulin áður en hann lenti þar óvænt við atvinnumissinn. Sá heimur sem birtist í strætisvagninum skarast svo við fortíðina. Frystihúsunum, sem horfin eru úr borginni, og atvinnulausum manninum er stillt upp hlið við hlið, hvortveggja úrelt. Þetta má heita dæmigert fyrir frásagnarmáta Ágústs Borgþórs, þ.e. að nota einfalda hversdagslega hluti, eins og strætisvagna og frystihús, í stað nákvæmra lýsinga til að draga fram stöðu persóna og líðan þeirra. Um leið er varpað ljósi á stærri mynd, þ.e.a.s. þjóðfelagið.

Helsti ókostur höfundarverks Ágústs Borgþórs, enn sem komið er a.m.k., eru endurtekningar hvað efnistök og stíl varðar. Hin hversdagslegu viðfangsefni sem hér var lýst að ofan eru rauður þráður í verkum hans og hið sama má segja um þann stíl sem Ágúst hefur tileinkað sér allt frá fyrsta smásagnasafni sínu. Af þessum sökum eru sögurnar og persónur þeirra sviplíkar. Eins þversagnakennt og það kann að hljóma er einn helsti styrkur höfundarverksins einnig falinn í þessum endurteknu efnistökum og stíl. Annarsvegar vegna þess að Ágúst Borgþór hefur náð góðum tökum á einföldum, lágstemmdum og látlausum stíl sem einkennist frekar af því að sýna en segja. Stíl sem hefur slípast og fágast með hverju verkinu og hentar auk þess söguefnunum yfirleitt vel. Þetta má vel sjá á síðustu tveim verkum hans Sumarið 1970 og Tvisvar á ævinni en með þeim má segja að Ágúst Borgþór nái hvað bestum tökum á þeim stíl sem hann hefur tileinkað sér frá fyrsta smásagnasafni sínu. Hinsvegar felst í þessum ókosti kostur af allt öðrum toga sem sem gerir verk Ágúst Borgþórs hvað mest spennandi fyrir lesendur. Í raun snýr þetta atriði að lestrarreynslu og áhrifum verkanna bæði þegar litið er á hvert verk fyrir sig en ekki síður þegar litið er til höfundarverksins í heild sinni. Í ljós kemur að verkin hanga saman á sterkara lími en vel slípuðum og liprum stíl.

Vegna þess að stemming, aðstæður og persónur eru svipaðar, bæði innan einstakra verka sem og í höfundarverkinu í heild, vaknar sú tilfinning að sögurnar tengist á áþreifanlegan hátt. Að persóna, staður eða fjölskylda, í einni sögu komi í raun fyrir í annari. Sögur innan einstakra verka vekja þannig innbyrðis hugrenningartengsl hjá lesanda. Sem dæmi veltir maður því fyrir sér hvort drengurinn í sögunni „Mánudagur“ og ungi maðurinn í sögunni „Batavegur“, sem birtust báðar í bókinni Í síðasta sinn (1995), séu sama persónan á sitthvoru aldursskeiðinu. Að minnsta kosti eiga þeir sitthvað sameiginlegt, eiga drykkfelldan föður og eiga við offituvandamál að stríða sem þeir upplifa á svipaðan hátt í æsku. Drengurinn í „Mánudegi“ lýsir stríðni sem hann verður fyrir vegna offitunnar á eftirfarandi hátt: „Algengari voru þó athugasemdir um vaxtarlag mitt, þó að flestir væru orðnir leiðir á að stríða mér heyrði ég þær þó enn“ (bls 41). Það er svo eins og ungi maðurinn í „Batavegi“ botni þessa frásögn: „Krakkarnir hættu að stríða mér. Þau stríddu mér þegar ég var „bara feitur.“ En síðar virtist ég verða of feitur til að hægt væri að stríða mér.“ (bls. 70).

Tengsl á borð við þessi gera það að verkum að lesandinn þarf að leiða hugann að öðrum sögum í verkinu. Tengslin þurfa ekki endilega að vera skýr, andrúmsloft og aðstæður persóna nægja til að vekja grun. Hvort sem slíkur grunur er á rökum reistur eða ekki gerir hann það að verkum að sögurnar bæta hver aðra upp, hugrenningartengsl myndast og krefjast endurmats sem leiðir til þess að hver saga bætir einhverju við og varpar ljósi á aðrar sögur. Þar með virka sögurnar í samhengi hvor við aðra, merkingarheimur tiltekinnar sögu nær útfyrir hana sjálfa og inn til annarra sagna verksins.

Smásagnasöfn sem mynda sterka heild, t.d. vegna þess að allar sögurnar gerast á sama stað og tímabili, eða fást við sömu viðfangsefni, eru gjarnan kölluð smásagnaklasar eða smásagnasveigar (e. shortstorycycle). Í slíkum verkum sameinist að nokkru leyti eiginleikar skáldsögunnar og smásagnasafnsins. Enda búa þau yfir heildaryfirbragði skáldsögunnar um leið og hver saga stendur ein og óstudd fyrir sínu. Slík verk liggja því einhverstaðar á mörkum smásagnasafns og skáldsögu. Í raun eru mörkin á milli smásagnasveiga og „venjulegra“ smásagnasafna ekki skýr og ef til vill má finna einhverskonar sveigahneigð í allflestum smásagnasöfnum. Ég hygg að slík hneigð sé til staðar í öllum verkum Ágústar Borgþórs, ef á annað borð er farið útí að greina þau á þennan hátt. Eitt verka hans hefur hvað augljósasta tilhneigingu í þessa átt. Hér á ég við verkið Sumarið 1970 (2001), þar sem innbyrðis tengsl sagnanna eru römmuð inn á þann hátt að ákveðið tímabil, þ.e. áttundi áratugurinn, veitir öllum sögunum hljómbotn.

En eins og vikið var að hér framar eru einnig sterk tengsl á milli sagna sem ekki tilheyra sama verki. Tengsl sem eru áþreifanlegri og skýrari en þau sem tengja sögur í einstökum verkum saman. Þessu til skýringar er vert að skoða eitt dæmi um heilan þráð sem liggur í gegnum þrjú verka Ágústs. Þetta er saga af bræðrunum Ólafi og Oddi sem síðast komu fram í smásögunni „Sektarskipti“ sem birtist í bókinni Tvisvar á ævinni (2004). Hún hefst á nokkuð táknrænum orðum fyrir þann þráð sem saga þeirra bræðra myndar í höfundarverkinu: „Sagan um góða og slæma bróðurinn er til í ótal gerðum, bæði í skáldskap og lífinu. Oft fjallar hún þó ekki um gæsku og illsku heldur ólánsaman bróður og gæfusaman bróður.“(bls. 49). Það má geta sér þess til að sögumaður sé að ýja að því að sagan af þeim Ólafi og Oddi sé ekki sögð í fyrsta skipti hér, þegar hann segir að sagan um góða og slæma bróðurinn sé „til í ótal gerðum.“ Þegar „Sektarskipti“ hefst eru þeir bræður orðnir fullorðinir menn, annar gæfusamur en hinn ólánsamur. Fyrst brá þeim fyrir í öðru sagnasafni Ágústs, Í síðasta sinn sem kom út árið 1995, þá ungir drengir í sögu sem ber nafnið „Rökkrið.“ Næst koma þeir fyrir í sögunni „Viðvaningar“ í safninu Hringstiginn frá árinu 1999, þar sem þeir birtast í fyrsta sinn sem fullorðnir menn. Allar eru sögurnar sagðar frá sjónarhóli yngri bróðursins, Ólafs, en sá eldri, Oddur, er aukapersóna í þeim öllum.

Í fyrstu sögunni, „Rökkrið“, er gefið fyrirheit um hvað framtíð bræðranna gæti borið í skauti sér. Ólafur er yngri og þægari en um leið óöruggari með sig, hann lítur upp til Odds og öfundar hann af þeirri athygli sem foreldrarnir sýna honum vegna ýmissa strákapara. Einkum beinist öfund Ólafs að þeirri athygli sem faðirinn sýnir Oddi:

[...] þegar pabbi var hvorki að heiman né upptekinn í verkfæraleigunni var hann að skamma Odd. Því Oddur var alltaf að gera eitthvað af sér. Ólafur var hættur að fylgjast með því hver afbrotin voru því þau voru svo algeng og sífellt til umræðu; sífeldar skammir. Ólafur var næstum aldrei skammaður. Samt óttaðist hann stöðugt að vekja reiði. Það var svo miklu ógnvænlegri tilhugsun að vera skammaður þegar það hafði næstum aldrei gerst. (bls. 114)

Í sögunni er Ólafur nánari móður sinn, þau fara saman í gönguferðir þar sem hún segir honum sögur frá því hún var lítil, en þrátt fyrir það er hún fjarlæg: „Það var létt yfir henni en þegar þau nálguðust húsið heima þagnaði hún og varð döpur á svipinn.“ (bls. 114). Sjónarhorn barnsins ríkir hér, það hefur engar forsendur til að átta sig á því hversvegna móðirin verður döpur þegar þau nálgast heimilið. Hinsvegar getur lesandinn ráðið það á milli línanna og þar með er gefið fyrirheit um það sem fylgir í kjölfarið. Fjarlægir foreldrar og skortur á nánum samskiptum þeirra við börn sín er reyndar eitt megin einkenni þeirra sagna Ágústs sem fjalla um börn þar sem yfirvofandi skilnaði og öðrum fjölskylduvandamálum er haldið leyndum fyrir börnunum. Þessar sögur eru sagðar frá sjónarhóli barnsins sem á erfitt með að átta sig á hvað er að eiga sér stað, faðirinn er bara allt í einu, eða smátt og smátt, fluttur að heiman í herbergi úti í bæ. Þetta er tilfellið í fyrstu sögunni af þeim Ólafi og Oddi, þar sem faðirinn hverfur smátt og smátt út af heimilinu og nýr maður kemur í staðin: „Breytingarnar lögðust yfir eins og síðdegisrökkrið sem hann gat aldrei staðið að verki. Án þess að hann tæki eftir því hafði leigubíllinn hans pabba breyst úr bíl sem hann sat iðulega í, í bíl sem hann var sífellt að bíða eftir að kæmi heim.“ (bls. 118).

Sé þessi saga lesin sem einskonar forspil að þeim vandræðum sem „góði“ og „slæmi“ bróðirinn verða fyrir í seinni sögunum tveimur má finna skýringar fyrir stöðu þeirra sem fullorðinna einstaklinga. Oddur fær aldrei uppreisn æru og vandræðastimpillinn sem hann hlýtur í æsku þvæst aldrei af honum enda fetar hann smátt og smátt stíg ógæfumannsins. Utangarðstilvist Ólafs í fjölskyldulífinu og staða hans sem fyrirmyndarbarns er hugsanlega skýring á rolugangi hans sem fullorðins manns og dulinni þrá eftir að fá athygli fyrir misgjörðir líkt og stóri bróðir hans hlaut: „Mamma talaði meira við hann en pabbi. Pabbi sagði að hann væri þægur og klappaði honum kollinn. „Reyndu að vera þægur eins og litli bróðir þinn,“ sagði hann við Odd.“ (bls. 114).

Í sögunni „Viðvaningar“, sem birtist í bókinni Hringstiginn (1999), hafa þeir bræður haldið sig á þeim brautum sem þeim voru markaðar í æsku. Það sem á sér stað í sögunni kallast óneitanalega á við upphafsorð síðustu sögunnar af þeim bræðrum sem vitnað var til hér í upphafi þ.e. að oft fjalli sagan af góða og slæma bróðurnum „ekki um gæsku og illsku heldur ólánsaman bróður og gæfusaman bróður.“ Ólánssemin og lánssemin eru þó tvíbent þar sem ólík staða þeirra í samfélaginu er fallvölt. Gæskan sem Ólafur, sá lánssami, stendur fyrir er mörkuð af hræsni. Enda áfellist hann bróður sinn fyrir að vera sokkinn í drykkjuskap með vafasömu fólki en heldur þrátt fyrir það framhjá með konu úr þessum hópi. Athyglivert er að sagan „Sektarskipti“ gæti verið beint framhald af sögunni „Viðvaningar“ enda snýst hún einnig um framhjáhald Ólafs og tengsl þeirra bræðra og hlutverka- eða sektaskipti.

Fleiri dæmi um einskonar framhaldsögur á milli verka mætti nefna. Nokkrar af bestu sögum Ágústs Borgþórs mynda klasa sagna sem tengjast á nokkuð fjölbreyttari hátt en sögurnar af þeim Ólafi og Oddi. Í heild segir þessi klasi sögu fjölskyldu sem verður fyrir því að missa son sinn af völdum sjúkdóms. Í þessari fjölskyldusögu bregður því við að sögurnar eru sagðar frá ólíkum sjónarhornum, annarsvegar barns og hinsvegar móður. Auk þess má leiða að því líkum að aukapersóna í fyrstu smásögunni, sem segir frá þessari fjölskyldu, fái sína eigin sögu annars staðar. Fjölskyldusagan hefst með sögunni „Hjónaherbergið“ í bókinni Í síðasta sinn, þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni eftirlifandi bróður drengsins sem deyr og er hún sögð í þriðju persónu. Fjölskyldusagan heldur svo áfram í sögunni „Sjúkrabíll“ í bókinni Hringstiginn. Hún er sögð frá sjónarhorni móðurinnar í þriðju persónu og lýsir sambandi hennar við eftirlifandi son sinn. Síðasta brot þessarar fjölskyldusögu er síðan í sögunni „Hverfa útí heiminn“ í bókinni Sumarið 1970 þar sem stiklað er á stóru í lífi eftirlifandi bróðurins en sagan er fyrstu persónu frásögn hans. Fjölskyldusagan er áhugaverð af þeim sökum að hún segir ekki beinlínis sögu af harmleik, þ.e. dauða barns, heldur eftirmálum þessa harmleiks – glímu mæðginanna við sorgina í daglega lífinu. Líklegt hliðarstef sem ég nefndi er svo sagan „Framtíð drengs“, í bókinni Hringstiginn, sem segir samhliða frá æsku og fullorðinsárum manns sem ekur strætisvagni og hefur keypt sér íbúð í Breiðholtinu. Aðstæður hans eru það líkar leigjanda hjónaherbergisins í sögunni „Hjónaherbergið“ að ómögulegt er annað en að tengja þá saman enda ekur hann einnig strætisvagni og hefur nýlega fest kaup á íbúð í Brei holtinu. Saga þessa manns kallast auk þess á við fjölskyldusöguna því hún segir frá dreng sem verður fyrir einskonar móðurmissi og áhrifum þess á fullorðinsárunum.

Eins og sjá má á dæmunum sem hér hafa verið rakin að framan má ef til vill líkja höfundarverki Ágústs Borgþórs við vef sem tengir saman brot þannig að úr verður heildstæður heimur. Stundum eru þræðirnir á milli brotanna vel greinanlegir en stundum eru þeir ekki eins augljósir. Einhver heildarmynd verður þó til sem gerir það að verkum að tilfinning fyrir samfelldum merkingarheimi myndast.

© Ingi Björn Guðnason, 2005

Verðlaun og viðurkenningar

2001 – Smásagnasamkeppni Strik.is, 1. verðlaun: „Hverfa út í heiminn“ (í bókinni Sumarið 1970)

2000 – Samkeppni MENORS og Dags: „Bænheyrður“ (í bókinni Sumarið 1970)

1994 – Viðurkenning í smásagnasamkeppninni Klukka Íslands hjá RÚV: „Fljótið“ (í bókinni Í síðasta sinn)

Um einstök verk

Hliðarspor

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson: „Ófullnægja hvunndagsins“
Tímarit Máls og menningar, 69. árg. ; 4. tbl. 2008, s. 130-3.

Stolnar stundir

Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir: „Eins og í sögu“ (ritdómur)
Spássían, 2. árg.; sumar 2011, s. 45.

Year:
2003
Publisher:
Year:
2002
Publisher:
Year:
1990
Publisher:
Year:
1987
Publisher:
Category:
Year:
2007
Publisher:
Category:
Year:
2015
Publisher:
Category:
Year:
2011
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
2003
Publisher:
Category:
Year:
1999
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
1995
Publisher:
Category:
Year:
1996
Publisher:
Category:
Year:
1987
Publisher:
Category:
Year:
1988
Publisher:
Category:
Year:
2001
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Ár:
1987
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1994
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1995
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2007
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2001
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1995
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2015
Útgefandi:
Flokkur:
Tvisvar á ævinni eftir Ágúst Borgþór Sverrisson

Ágúst Borgþór er einn af fáum íslenskum samtímahöfundum sem hefur einbeitt sér að smásagnaforminu, en Tvisvar á ævinni er fimmta safnið sem hann sendir frá sér. Í safninu eru níu ótengdar sögur, en þær eiga það þó flestar sameiginlegt að þar er fjallað um karla sem eru allir heldur illa á vegi staddir í sálarlífinu. Ástæðan fyrir vanlíðan þeirra er af ýmsum toga: atvinnumissir, óvissa um samband við eiginkonur eða kærustur, eða hvert stefna skuli í lífinu, einn er reiður og að því er virðist ofbeldishneigður heimilisfaðir sem hefur allt á hornum sínum en það sem margir þeirra eiga sameiginlegt er að þeir geta ekki eða eru á einhvern hátt vanhæfir til að setja sig í samband við fólkið í kringum sig, konurnar sínar, kærustur, börnin sín.

Rithöfundurinn Ágúst Borgþór Sverrisson hefur sent frá sér nokkur smásagnasöfn en upp á síðkastið hefur hann fikrað sig yfir í skáldsagnagerð.