Höfundar og bækur

Hér má finna upplýsingar um á annað hundrað íslenska samtímahöfunda sem skrifa skáldskap af ýmsum toga. Nýjum höfundum er bætt við reglulega en listanum er ekki ætlað að vera tæmandi.

Hægt er að fletta niður listann til að finna tiltekinn höfund, eða leita eftir nafni höfundar eða verks í leitarglugganum hér fyrir neðan.

 

„Einu sinni var innbrotsþjófur sem alltaf var að brjótast inn og alltaf að vona að kona á rósóttum slopp myndi vakna upp og segja þegar hún sæi á honum angistarsvipinn: Ég veit að þú ert góður inn við beinið, greyið mitt. Og síðan myndi hún gefa honum mjólk að lepja úr skál.“
(Galdrabók Ellu Stínu)

„Trúðu mér, Páll minn. Mannkynið vill ekki láta frelsa sig, forðast það satt að segja eins og heitan eldinn. Nei, þú skalt bara lofa kúlunni að snúast eins og hún vill. Einbeittu þér heldur að einhverju öðru, fótbolta, langstökki, frímerkjasöfnun.“
(Í skugga heimsins)

„Þeir áttu greinilega langa göngu fyrir höndum. Vonandi stytti upp áður en kæmi til orrustu. Hætt var við að musketturnar yrðu lítils virði í slíkri bleytu, jafnvel þótt þeir reyndu að verja patrónurnar og tinnuna. Jannis var ekki jafn stoltur og áður. Var hægt að vinna stríð með slíkum her? Köldum, illa klæddum, oft svöngum. Nokkra vantaði.“
(Landið handan fjarskans)

„Og andartak óttaðist ég að hún ætlaði að fara að skella á mig einhverju um hringrás lífsins eða að dauðinn væri aðeins lífið í annarri mynd, kannski jafnvel koma með líf eftir dauðann. Og þoldi ekki tilhugsunina. Þoli ekki þessar klisjur sem fólk notar til að hugga sig við, af því það þorir ekki að horfast í augu við þá staðreynd að það lifir, og það deyr, og þar með búið.“
(Meðan nóttin líður)

„Hún talaði við blómin, elskaði flugur og fiðrildi og fléttaði körfur úr stráum, klæddi þær með fífum úr mýrinni og sagði að þetta væru rúm fyrir litla fólkið sem ætti heima í hvamminum fyrir ofan húsið. Guðrún hafði aldrei heyrt um álfa í hvamminum, sagði henni að hætta þessari vitleysu og vildi kenna henni að prjóna.“
(Vetrareldur)

mér býður við landslagi / þreyi eftir andlagi / verður óglatt af mánaskini / söngfugli í mó heiðlóu / hagamús músarindli // einhyrningar finngálkn drekar / hvar er ímyndunarlandið
(Andljóð og önnur)

„Gaman væri að / gifta sig að vetri / helst í stórhríð / svo veislugestir tepptust inni / Þeir kæmust ekki heim / fyrr en undir sumar“
(Höggstaður)

„Maður heyrði hróp og köll í þjálfurunum og dómararnir voru að dreifa sér á vellina. Fánar allra liðanna blöktu á fánastöngunum og á öllum völlunum voru lið að hita upp. Ég gleymdi um leið öllum draumum og stelpum. Það var kominn tími á fótbolta.“
(Aukaspyrna á Akureyri)

„Básúna hljómar / og dyr opnast á himni. // Fjallið lyftist undir fótum mínum / og svífur burt // en ég ligg eftir í sárinu.“
(Tré í húsi)

Það bliknaði á sverð og skothvellir blönduðust ópum og kveinum fólksins. Veinandi börn, farlama gamalmenni, allir höktu sömu leið eftir moldarslóðunum, biðjandi fyrir sér. Katla þorði ekki einu sinni að strjúka blóðið sem rann niður vanga hennar og háls af ótta við fleiri högg. Hún hafði aðeins ætlað að gægjast til fortíðar, ekki lenda í atburðarásinni miðri.
(Ránið)

Dauðinn er svo einkennilega skammt frá lífinu. Hann fylgir því fast eftir, hann fæðist með því. Stundum leiðir hann ævi manns. Og það er hægt að ganga frá lífinu inn í dauðann, en það er engin leið að snúa frá honum aftur til lífsins nema aðeins einu sinni: aðeins þegar maður fæðist.
(Svanurinn)

„Eftir því sem brotnu rúðunum fjölgaði, glamrið varð tíðara, fannst okkur of tafsamt að nota teygjubyssurnar. Í þess stað brutum við rúðurnar í tryllingi. Og þegar glerbrotin grýttust út í snjóinn, rákum við upp heróp, sem líklega voru ættuð úr indíánasögum, sem við fengum að láni í Lestrarfélaginu.“
(Grallaraspóar og gott fólk)

„Ég sef ekki. Klukkan var tvö, síðan þrjú, nú er hún fjögur. Ég mun öldungis ekki fá sofið í nótt. Ég heyrði áðan bylmingshögg á þakinu eins og einhver væri þar og riði húsum. Ég hætti mér ekki út að glugga en ímyndaði mér að verur næturinnar hefðu vaknað af dvala.“
(Íslandsförin)

„Veggurinn himinhái náði svo langt upp í loftið að Dúkku-Lísa sá ekki hvar hann endaði, sama hvernig hún reigði höfuðið. Hún reigði það meira að segja svo mikið að hún var hrædd um að það myndi bara losna af hálsinum og detta niður á rass. Hún hafði aldrei á ævi sinni séð svona háan vegg.“
(Lísa og galdrakarlinn í Þarnæstugötu)

„Sólveig skynjaði erótíkina í þessu öllu þótt hún hefði ekki hugmynd um það. Þegar hún snerti drumbana var það næstum því það sama og að taka í höndina á rússneskum skógarhöggsmanni, en hún hélt að straumurinn í lófanum stafaði af því hvað viðurinn var hrjúfur.“
(Sagan af sjóreknu píanóunum)

„Ég las um systur hans / litlu systur hans sem dó / hún hafði borðað kolamola / og það tók hana heila viku að veslast upp // úr augum hennar flóði himinblámi / og silfrað myrkur“
(Staðir)

„Hún Flumbra gamla tröllskessa varð einu sinni ógurlega skotin í stórum og ljótum tröllkarli. Hann átti heima langt, langt í burtu. Tröllkarlinn var svo ægilega latur, að hann nennti næstum aldrei að heimsækja hana. Þess vegna varð hún að elta hann út um allar jarðir.“
(Ástarsaga úr fjöllunum)

„Þá hringdi síminn // svolítið önugur / sagði hann og dustaði / rykkorn af löfunum: / „Já, hver er það?“ //  „Dauðinn,“ var svarað, / „ég er lagður af stað!“ “
(Döggslóð)

„Um tíma átti hann nokkrar hænur, en þær urðu skammlífar; komust í gersull eftir að hann var farinn að brugga og hættur að bíða áfengisferða til Seyðisfjarðar. Hann hafði hellt botnfallinu út á grasflötina bak við húsið og hænurnar komu vappandi í glampandi sólskini og tóku að stinga niður goggum á þessum litla bletti.“
(Trésmíði í eilífðinni)

„Óneitanlega var örlítið fyndið að sjá „byltingarmanninn“ arka um bæinn með barnavagn. Sú skondna mynd kveikti að sjálfsögðu glott á bakvið gardínur. Hitt vissi Böddi hinsvegar ekki; að fátt var betur fallið til að milda ímynd hans í augum bæjarbúa en þessi gamli grái hálfryðgaði barnavagn.“
(Rokland)

Flaug hann og flaug / fleygði sér sniðhallt í storminn. / Dró hann og knúði / dulmögnun langt inní veðrinu. / Flaug hann og flaug. / Fjaðrir hans dundu / blásvartar / ofar brimlöðri hafsins.
(Óður um Ísland)

„hann hverfur inn í dimmt / herbergið og grunur læðist / að honum um að / útlínur ógreinilegra innan- / stokksmuna skarist illi- / lega við hans eigin“
(Stundum alltaf)

„Þau hjóluðu niður í hlíðina sem sneri út að Nauthólsvíkinni, lögðu hjólunum upp við stóran stein og fóru að leita að góðum samastað fyrir músina. Þau gengu inn í fallegt rjóður sem var nær alveg hulið trjám á alla vegu.“
(Við enda regnbogans)

Læknarnir fullyrtu að ég myndi vakna upp að morgni eftir aðgerðina. Ég lét mér vel líka en fannst að þeir lofuðu meiru en þeir væru vissir um að standa við. Það reyndist rangt. Einhverntíma í dag sá ég kúbönsku stelpuna. Hún sveimaði hér um á bleiku skýi, baðandi út höndunum eins og hún væri að höndla eitthvað ósýnilegt.
(Til baka: sannsöguleg skáldsaga)

„Eftir að hafa notið útsýnisins um stund og hvílt þrælana fikruðu þau sig niður brattan slóðann. Albus, hestur Catúllusar, fnæsti fjörlega, líkt og hann þekkti heimaslóðir sínar. Þrælarnir fetuðu sig gætilega með burðarstólinn.“
(Letrað í vindinn – þúsund kossar)

„Um leið og ég tek í dyrahúninn hleypur kvikt smádýr upp handlegginn, borar sig inn um húðina við olnbogabótina í máli mínu, dyrnar opnast, mr night réttir mér hönd sína og togar mig út, leiðir mig undir trén sem slútta yfir gangstíginn, ég heyri
langdregið væl í uglu“
(Ugluturn)

Handan við þokuna flýtur ferðbúið skip. / Ferjumaðurinn bíður þar dulur á svip. // Innan stundar verður frá landi lagt. / Ekki mun grátið, ekki hlegið og ekkert sagt. // Við tekur nóttin endalaus, dökk og dimm. / Daufar stjörnur skína mér tvær og fimm. ...
(Dynfararvísur)

„Lýst er eftir konu / sem fór að heiman í árdaga / fáklædd og loguðu / eldar í augum / lagði á brattann og hvarf / inn í viðsjála þokuna // æskurjóð og hefur / ekki sést / ekki sést síðan.“
(Nú eru aðrir tímar)

Hvílík frekja og framhleypni í stelpunni að troðast inn í herbergið hjá prestinum. Hún hefur ekki einu sinni orðið sjálfri sér til stór skammar, heldur einnig heimilinu, og slíkt má ekki endurtaka sig. Hlíf verður að fara burt frá Stóra-Felli, hvað sem það kostar, og það strax á morgun. Hún skal verða rekin burt af heimilinu!
(Heimasætan á Stóra-Felli)

„fyrir þig / myndi ég gjarna / bera inn sólskin / í botnlausum potti / allan daginn // kreista sólina / svo gulir taumar / rynnu um þig alla“
(Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást)

„Þegar kvöldar / fer pabbi út að veiða ljóð. // Vopnaður brúnni, örsmárri skrifbók / og þremur kúlupennum / hverfur hann sjónum okkar / og leysist upp í appelsínurautt sólarlagið.“
(Rennur upp um nótt)

„En morguninn eftir þegar þeir vöknuðu var austurhluti dalsins aðskilinn frá vesturhlutanum með þéttvöxnu þyrnigerði sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Fólkið austan þess var innilokað. Annars vegar við það voru ókleifir hamrar, hins vegar þyrnigerðið.
Upp frá því töluðu íbúarnir um Austdal og Vestdal.“
(Gegnum þyrnigerðið)

„Mér er sagt að þegar vorið nálgist / syngi spörfuglar á nöktum trjágreinum, / húki þar eins og dauðvona menn / í járnrúmum. // Miskunnarlaust er vorið. // Það skipar öllum að syngja.“
(Ný lauf, nýtt myrkur)

„Guðbjartur var semsagt vanur því að setjast fyrir framan kassann á hverjum einasta sunnudagseftirmiðdegi og horfa á fótbolta, alveg fram að fréttum, og honum fannst helvíti hart ef nú átti að fara að svipta hann þessari heilögu stund fyrir einhverja strákaula úr Reykjavík sem báðir voru náttúrulega snarbilaðir ...“
(Ég stjórna ekki leiknum)

Jón Kalman Stefánsson

„Sjáiði, hvísla sumir, en svo þorir enginn að benda eða segja meira. Fólk bara horfir. Aftur leiftra svipirnir, nú á öðrum stað, leiftra í þriðja sinn, í fjórða sinn og síðan ekki meir. Það slaknar örlítið á þandri spennunni, munnvatnið vætlar fram, eitthvað er sagt lágum hljóðum, en þá rýfur vælið kyrrðina.“
(Birtan á fjöllunum)

„Ljótt að bölva sumri, ég veit / en sumar að koma er samt líka árans tíminn / að líða, svipta undan mér fótunum // Fjallið varð jafn gott næsta vetur – // Samt varð aldrei aftur / jafn skemmtilegt að vera ég“
(Tímabundið ástand)