Sleipnir - Lestrarfélagi barnanna

KOMDU MEÐ Á HUGARFLUG

Bókmenntaborgin hefur gert áttfætta goðsagnahestinn Sleipni að sérlegum lestrarfélaga sínum og allra barna.  Sleipnir er þeim töfrum gæddur að geta flogið á milli heima og þannig táknmynd ferðalagsins og hugarflugsins sem bóklestur býður okkur upp á.  Sleipnir er því enginn venjulegur hestur, hann er í raun tákn skáldskaparins sjálfs, hinn norræni skáldfákur.

Í nafni Sleipnis mun Bókmenntaborgin taka þátt í verkefnum sem snúa að lestrarhvatningu og skapandi starfi barna og ungmenna. Reykjavíkurborg leggur þegar ríka áherslu á slíkt starf með skapandi sumarhópum ungs fólks, barna- og unglingastarfi Borgarbókasafns, skapandi starfi í leikskólum og grunnskólum og Barnamenningarhátíð, en áhugi er fyrir því að efla samstarf ólíkra aðila á þessu sviði.

HVER ER SLEIPNIR?

Í goðsögunni er Sleipnir afkvæmi Loka að móðerni og jötnahestsins Svaðilfara. Sleipnir þýðir sá sem rennur hratt áfram. Hann er hestur Óðins og sagður allra hesta bestur og hefur hann rúnir ristar á tennur sér. Skáldfákurinn Sleipnir hefur slagorð sitt flúrað á sig: „Komdu með á hugarflug“. Hann er framhleypinn og ögrandi húmoristi sem er ófeiminn við að sýna hvað í honum býr, en á sama tíma ljóðrænn og yfir honum er ævintýraljómi. Sleipnir er vel lesinn og býr yfir miklu bókviti og er þannig hvetjandi fyrirmynd á sviði orðlistar fyrir börn og ungmenni.

Sleipnir mun standa að ýmsum lestarhvetjandi viðburðum á vegum Bókmenntaborgarinnar fyrir yngri kynslóðirnar. Hans fyrsta verkefni var að bjóða börnum í ratleik í kringum Reykjavíkurtjörn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2012. Þar gátu börn og foreldar leikið sér að því að leysa léttar þrautir tengdar textum úr barnabókum. Sleipnir bauð einnig börnum til sín í Sleipnisstofu í Ævintýrahöllinni sem var í Iðnó á meðan hátíðin stóð yfir.

teikning af Sleipni

SUMARLESTUR MEÐ SLEIPNI

Á sumrin minnir Sleipnir börn á að lesa sér til ánægju og hvetur þau til að taka þátt í sumarlestri Borgarbókasafns Reykjavíkur. Þar fylla börn út lestrarmiða fyrir hverja lesna bók og á bakhlið miðans er skeifa Sleipnis til að minna þau á Sleipni og það hugarflug sem lesturinn býður upp á.

Sleipnir er skapaður af Gunnari Karlssyni myndlistarmanni og Þórunn María Jónsdóttir búningahönnuður bles lífi í hann með stórkostlegum búningi.

SKOÐA MYNDSKEIÐ MEÐ SLEIPNI:

Sleipnir á flugi

Lestur er hugarflug

LESTUR ER LYKILL – LESTRARHVATNING TIL FORELDRA

Frá 2012 hefur bæklingnum Lestur er lykill verið dreift í nafni Sleipnis til foreldar í ungbarnavernd Reykjavíkur. Þar er fjallað um mikilvægi þess að byrja að lesa fyrir börn strax í frumbernsku. Í bæklingnum er að finna handhæg ráð og leiðbeiningar til foreldra um hvernig hægt er að gera lestrarstundir að ánægjulegum fjölskyldustundum sem allir hafa gaman af.

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda og Barnabókastofa standa á bak við Lestur er lykill.

Með því að smella á tengilinn hér til hliðar má skoða bæklinginn. Lestur er lykill

SLEIPNIR VERÐUR TIL

Hér er hægt að skoða sköpunarferlið frá teiknimynd yfir í lifandi veru.

SLEIPNIR FRUMSÝNDUR

Myndasafn frá Barnamenningarhátíð 2014