Hugmyndabanki Sleipnis

Hugmyndabanki Sleipnis fyrir leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðvar

Þema lestrarhátíðar 2016 er orð og mynd

Myndir geta falið í sér mörg orð og orð geta geymt margar myndir. Við erum vön að líta á þessi tjáningarform sem aðskilin, en þau eru það alls ekki. Á hátíðinni í ár verður áhersla lögð á að tengja orð og mynd og færa lestur og myndlestur nær hvort öðru. Fagfólk á starfsstöðum SFS er hvatt til að nota hugmyndaflugið og finna lifandi og skemmtilegar leiðir til að vinna með orð og myndir á Lestrarhátíð í október. Allt má og ekkert er bannað en hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir að verkefnum til að vinna með.

Myndmál, myndasögur, myndljóð, frásagnarmálverk, að draga upp myndir í orðum og orð í myndum – hvers kyns samspil eða samsláttur orða og mynda verður í brennidepli.
Hér eru hugmyndir að verkefnum sem hópur kennara tók saman. Verkefnin eru opin og á að vera auðvelt að aðlaga þau mismunandi aldri og nemendahópum.

ORÐ

Sagnagerð: Sýna mynd og fá börnin til halda áfram með söguna: „Hvað gerist næst“?
Þetta er hægt að útfæra munnlega, skriflega eða nota aðra miðla.

Myndskreyta ljóð eða textabrot með teiknuðum myndum: Bendum sérstaklega á ljóð ætluð börnum eða ljóð eftir börn.

Myndskreyta með hljóði: Lestur getur verið hefðbundinn og eins mjög óhefðbundinn líkt og hljóðlestur og er verkefnið tækifæri til að nýta nýja miðla til læsis. Hljóðbankar eins og Soundbible http://soundbible.com/ bjóða fríar hljóðskrár til að vinna með sem dæmi. Einnig er auðvelt  að taka hljóð upp á spjaldtölvum og skapa aukin áhrif með hljóði við texta.

Teikna bókatitil: Ólíkir bókatitlar valdir og nemendur fá það verkefni að teikna eða myndlýsa bókatitlinum. Hægt að hafa samkeppni um bestu myndlýsinguna.

Klippimyndaljóð eða saga. Orð klippt út úr blöðum eða bókum og nemendur fá að raða þeim saman eftir eigin hugmyndaflugi í ljóð/örsögur.
Nota texta frá öðrum höfundum sem er klipptur niður og notaður sem efniviður í ný ljóð eða sögur eftir krakkana. T.d. getur þetta verið texti eftir skáld eins og Shakespeare eða Jónas Hallgrímsson, Jane Austen eða aðra klassíska höfunda sem og samtímahöfunda sem nota tungumálið á annan hátt en börnin eiga að venjast.

Bókagerð: Fá nemendur til að gera myndabækur eða útfæra sína bók.
Nota má Book Creator smáforritið og eða önnur smáforrit.
Book Creator smáforritið er hægt að nýta til að búa til litlar bækur, sögur með orðum og myndum.
Dæmi um viðfangsefni: Dagur í lífi mínu. / Hverfið mitt. / Uppáhalds bókin mín. / Leiðin í skólann. / Þegar ég er glöð/glaður. / Ég er hrædd við.... / Það besta sem ég á.

Handrit og handritagerð. Handrit er ein stór myndlýsing á því hvernig eitthvað á að líta út á leiksviði eða kvikmynd. Skoða lýsingar í handritum.

Skáld í skólum – unglingastig

Við bendum á tilboð Bókmenntaborgarinnar í október í samstarfi við Skáld í skólum. Höfundarnir Kristján Þórður Hrafnsson og Óskar Jónasson ræða handritagerð og hvernig leikritið Fyrir framan annað fólk var aðlagað að kvikmynd. Hver er munurinn á leikriti og kvikmynd? Hvernig aðlagar maður sögu að hvíta tjaldinu og hvað virkar í bíó? Kvikmyndin Fyrir framan annað fólk var upprunalega leikrit með tveimur leikurum sem leikstjórinn Óskar Jónasson og leikskáldið Kristján Þórður Hrafnsson umbreyttu í rómantíska gamanmynd. Ferlið var alls ekki einfalt, það tók fjögur ár og kostaði ótal vangaveltur og heilabrot. Óskar og Kristján Þórður veita innsýn í vinnuna sem býr að baki ritun kvikmyndahandrits og sýna brot úr myndinni. Dagskráin hentar best 8. - 10. bekk.

Bókmenntaborgin býður uppá 10 fríar smiðjur með þeim félögum á Lestrarhátíð. Bókanir hjá Rithöfundasambandi Íslands: tinna@rsi.is

Æfingar í að auka orðaforða
Perluvinafélagið í Lauganesskóla í 1. og 2. bekk gerir eftirfarandi til að auka orðaforða nemenda: Nemendur fá nýtt orð í hverri viku sem er rætt og sett í samhengi í töluðu máli. Þau fá verkefni eins og að lýsa félaga sínum með orðum og vinna verkefni þar sem þau markvisst auka orðaforða sinn. Orð eins og „umhyggjusöm/samur“, „góðhjartaður“, „hjálpsöm“, „umburðarlynd“ eru rædd og þarna eru tækifæri til að vinna með myndmálið.

Orðaspil
Nota spil eins og Fimbulfamb, Heilaspuna eða Scrabble til að virkja orðaforða og auka hann.
Ræða fyndnasta orðið, sterkasta orðið, ljótasta orðið, skrýtnasta orðið og svo framvegis.
Búa til orð fyrir liti: vinna með liti og litatóna: t.d. sýna nemendum gráa litaskala og fá þau til að gefa hverjum lit nafn, eða bláa liti svo dæmi séu tekin.

MYND

Lýsingar í myndum: Lýsa híbýlum fólks í sögum. Getur verið skókassaverkefni (gera lítið þrívíddarlíkan) eða teikning.
Skókassaverkefni ýmiskonar, t.d. skapa herbergi, kafla í bók, ljóðmynd.
Vinna með ólíkar gerðir mannlýsinga: Frá teikningu yfir í lýsingu með orðum yfir í myndlistarverk sem er orðalýsing, sbr. verk Birgis Andréssonar Mannlýsingar.

Klippimyndir

  • a) Klippimyndir af fólki, t.d. geta bekkjafélagar unnið myndir af sér úr tímaritum og blöðum.
  • Þetta er hægt að vinna sem hópverkefni: 4-5 nemendur vinna saman – búa til áhugaverða persónu og sögu um hann. Hægt er að nýta ipada í verkefnið. Taka myndir hvert af öðru og vinna síðan með þær, blanda saman andlitum o.s.frv.
  • b) Gera klippimynd af skrímsli eða goðsagnapersónu og skapa heim, sögu í kringum hana.
  • Vinna með þekkt málverk. Taka þekkt málverk og fá nemendur til að mála eftirmyndir með sig í forgrunni og skapa sögu í kringum myndina, t.d. Ópið eftir Munch. Útgangspunktur er: Af hverju hrópar maðurinn? Væri líka hægt að klippa og líma saman útprent af málverki og ljósmynd af nemendum í viðeigandi stellingum.

Myndasöguverkefni
Hægt er að vinna myndasögur, t.d. í samvinnu við Borgarbókasafnið sem opnar myndasögusýningu með verkum Þorra Hringssonar í Grófarhúsinu í október. Þorri sýnir hvernig myndasaga verður til og hvernig hann notar orðin og söguna til að útfæra hugmynd að myndasögu.

Skoða myndir og ræða
Heimsókn í Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús á sýningu Errós: Stríð og friður. Erró skapar myndasögur og lýsir fortíð og nútíð í gegnum sterkar og litríkar myndir. Efniviður Errós eru textar úr samtímanum, s.s. fréttir og sögulegar heimildir sem hann vinnur verkin upp úr.
Þess skal geta að Listasafn Reykjavíkur býður nemendur í 8. bekk sérstaklega velkomna á þessa sýningu og hægt er að panta rútu í gegnum safnið fyrir þennan árgang. Allir skólar og árgangar geta pantað leiðsögn á sýninguna.

Skáld í skólum – yngsta stig

Smiðjur fyrir yngstu bekki grunnskóla í samstarfi við Skáld í skólum. Myndhöfundarnir Bergrún Íris Sævarsdóttir og Jóna Valborg Árnadóttir segja frá sínum myndheimi og hvernig hann verður til.

Hvernig kviknar hugmynd að bók? Hvað má og hvað má ekki í bókum – er kannski allt leyfilegt, engar reglur og allt hægt? Jóna Valborg og Bergrún Íris segja frá hugmyndum sínum, rýna í myndirnar og skoða hvernig myndir og texti
vinna saman að því að koma hugmynd á framfæri. Ýmis ævintýri koma við sögu og nemendur fá að setja sig í spor annarra. Barnabókahöfundarnir Jóna Valborg Árnadóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir fjalla um myndskreytingar,
kveikjur og hugmyndir. Dagskráin hentar best 1. – 4. bekk.

Bókmenntaborgin býður uppá 10 fríar smiðjur með þeim Bergrúnu og Írisi á Lestrarhátíð. Bókanir hjá Rithöfundasambandi Íslands: tinna@rsi.is

Rappmyndbandsgerð: Hópurinn semur texta, syngur og tekur upp myndband sem er myndlýsing af textanum.

NÆRUMHVERFI

Upplagt er að nota listaverk í skólanum eða umhverfi skólans. Til að mynda má fá nemendur til að gefa þeim nýtt nafn eða semja sögu um verkið. Með eldri nemendum er hægt að kafa dýpra og fá þau til að hljóðlesa umhverfið, vinna myndlýsingar og orðlýsingar á listaverkinu og framvegis.

Myndgera umhverfi sitt, bæði í orðum og myndum.

Nemendur geta búið til setningar um hverfið og myndskreytt. Hægt er að halda áfram með verkefnið og myndskreyta hverfið með myndum og textum á meðan Lestrarhátíð stendur yfir.

Fljótandi textar í sundlaugum. Myndskreytingar, orðskreytingar á ljósastaura svo dæmi sé tekið. Kríta ljóð á stéttar.

Tilboð Bókmenntaborgarinnar fyrir leik- og grunnskóla

Við hvetjum ykkur einnig til að nýta tilboð Bókmenntaborgarinnar fyrir grunnskóla.

Eða bóka Lestrarstund með Sleipni - lestrarfélaga barnanna fyrir leikskólabörn

Góða skemmtun á Lestrarhátíð!