Styrkveitingar menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar 2017

Úthlutun styrkja menningar- og ferðamálaráðs og útnefning Listhóps Reykjavíkur fór fram í Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi mánudaginn. 9. janúar. Þórgnýr Thoroddsen varaformaður ráðsins gerði grein fyrir úthlutuninni og öðru framlagi til menningarmála og borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B. Eggertsson undirritaði samninga við fjórar lykilhátíðir sem fá viðurkenninguna Borgarhátíð Reykjavíkur 2017 – 2019 með sérstöku fjárframlagi og samningi að uppfylltum ítarlegum skilyrðum. Fyrir valinu urðu Iceland Airwaves með 14 m.kr. á ári, HönnunarMars og Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík RIFF með 10 m.kr. hvor og Hinsegin dagar – Reykjavík Pride með 7 m.kr. á ári. Borgarhátíðirnar fjórar hljóta því samtals 41 m.kr. á ári. Þórgnýr Thoroddsen varaformaður menningar- og ferðamálaráðs leggur áherslu á að  Reykjavíkurborg leggi sig fram við að standa faglega að öllu styrkjaferli. ,,Við setjum okkur sérstakar verklagsreglur um styrki fyrir hvert ár með nýjum áherslum og þeim breytingum sem ábendingar hafa komið um að betur mætti fara. Menningarstefna Reykjavíkurborgar og aðgerðaráætlun byggð á henni vísa líka veginn.  Þá er það vilji borgaryfirvalda að hlúa sem best að menningu og listum í borginni, enda  eykur öflugt menningarlíf lífsgæði borgarbúa og stuðlar að samfélagslegri og efnahagslegri velferð.“ Faghópi skipuðum fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands var falið að fara yfir aðrar styrkumsóknir og gera tillögur til menningar- og ferðamálaráðs, sem samþykkti þær óbreyttar. 152 umsóknir bárust að upphæð samtals 245 m. kr. Til úthlutunar voru 56.2 m.kr. Þar af voru 37.8 m.kr. veittar í 67 verkefnastyrki og 18.4 m.kr. í 13 nýja samninga um menningarstarfsemi hópa og hátíða til 2ja eða 3ja ára. Hæstu nýju 3ja ára samningarnir eru 4.5 m.kr. árlega til Stockfish kvikmyndahátíðarinnar, 4 m.kr. til Bókmenntahátíðar í Reykjavík og 2 m.kr. til Menningarhússins Mengi. Fyrir voru í gildi 8 samningar að fjárhæð 18.4 m.kr. Alls er því varið 36.8 m.kr. á árinu 2017 til þessara langtímasamninga. Leikhópurinn RaTaTam var útnefndur Listhópur Reykjavíkur 2017 með 2 m.kr. styrk.RaTaTam er sviðslistahópur sem rannsakar mannlegt eðli og mannleg samskipti. Hópurinn vill nýta leikhús til að opna á umræðu, stinga á kýli, ljá fegurðinni vængi og gera list sem skiptir samfélagið máli. Hann er sterkur og drífandi og hefur löngu sannað sig með öflugu starfi sínu, síðast með verkinu SUSS!!! í Tjarnarbíói. Af öðrum menningarstyrkjum Reykjavíkurborgar árið 2017 má nefna nýjan 3ja ára samstarfssamning við Bíó Paradís sem nemur 17.5 m.kr. árlega og annan til rekstrar Menningarfélagsins í Tjarnarbíói með 14 m.kr. Nýlistasafn Íslands og galleríið Kling& Bang hefja starfsemi sína í Marshallhúsinu á Granda innan fárra vikna og fá því aukinn stuðning eða Nýló 12.5 m.kr. og Kling&Bang 6 m.kr. Þá hefur Reykjavíkurborg hefur gert Hönnunarmiðstöð Íslands kleyft af hefja blómlega starfsemi í Aðalstræti 2 með þriggja ára samningi sem hljóðar upp á 7.2 m.kr. 2017. Hæsta rekstrarframlag Reykjavíkur til menningar- og listastarfsemi er sem fyrr til Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu eða 618 m.kr. auk innri leigu fyrir húsnæðið  á 413 m.kr. Aðrir húsnæðisstyrkir vegna menningarrekstrar í húsnæði borgarinnar nema alls rúmum 109 m.kr. á árinu. Framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árinu er áætlað um 214 m.kr. og til Listahátíðar í Reykjavík 36 m.kr. Ýmis önnur verkefni halda áfram á árinu s.s. framlög til útflutnings menningarverkefna, styrkir til myndríkra bóka um Reykjavík o.fl. Alls nema þessi framlög, rekstrar- og húsnæðisstyrkir til menningarmála 1.616 m.kr. Hlutur Reykjavíkurborgar vegna byggingarkostnaðar Hörpu nemur 537 m.kr. á árinu 2017.