Íslensku þýðingaverðlaunin

Hallgrímur Helgason verðlaunaður fyrir Óþelló

Íslensku þýðingaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hannesarholti miðvikudaginn 15. febrúar 2017. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson veitti verðlaunin. Hallgrímur hlaut verðlaunin fyrir þýðingu sína á leikritinu Óþelló eftir William Shakespeare.

Umsögn dómnefndar:

Í annað sinn fetar Hallgrímur Helgason í fótspor þeirra Matthíasar Jochumssonar og Helga Hálfdanarsonar og þýðir leikrit eftir Shakespeare. Nú er það ástardramað Óþelló. Skemmst er frá því að segja að textinn leikur í höndum Hallgríms, bæði prósi og bundið mál, en leikritið er að mestu í bundnu máli með lausamálsköflum inn á milli. Í ljóðmáli þýðingarinnar nýtir Hallgrímur sér hina íslensku hefð stuðlasetningarinnar og fylgir í meginatriðum hinum jambíska pentameter eða stakhendu frumtextans en lætur þó hvorugt formið binda sig eða hefta. Hrynjandin er leikandi létt og orðgnóttin mögnuð, og Hallgrímur sveiflar sér frá ljóðrænni rómantík yfir í karlmannlega hörku og bregður svo í klámfengið orðbragð og jafnvel stöku slettur, allt eftir því sem við á hverju sinni. Merking textans er hvarvetna augljós og skýr og fjölskrúðugt sælgæti fyrir leikara, áhorfendur og lesendur.

Verðlaunin

Í dómnefnd sátu Tinna Ásgeirsdóttir (formaður), Ingunn Ásdísardóttir og Davíð Stefánsson. Þetta var í þrettánda sinn sem þýðingaverðlaunin eru veitt, en þau voru sett á stofn árið 2005 til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.

Þakkarræða

Í þakkarræðu sinni sagði Hallgrímur meðal annars: „Oft hef ég óskað þess að það væru 18 mánuðir í árinu svo ég gæti á hverju ári eytt sex mánuðum með Shakespeare. Hvað er svona merkilegt við hann? Ætli það sé ekki mennskan og mælskan, dansinn og dýptin, ljóðlistin og lífsmagnið. Sérhver lína er óvenjuleg, orginal og hlaðin slíkri orku að þýðandinn tekst á loft. Aldrei prófaði ég kókaín en í ótal kvikmyndum hefur maður séð fólk sjúga það upp í nef sér í löngum hvítum línum og verða ógnarhresst á augabragði. Línurnar hans Shakespeares eru svartar en ekki hvítar en um leið og maður er búinn að hesthúsa eina er maður kominn í rétta standið til að takast á við þær næstu. Texti Shakespeares er skynörvandi og gefur akkúrat réttu vímuna sem þarf til að geta þýtt hann. Ef fólk vill prófa hugvíkkandi efni mæli ég með Shakespeare, það fylgir honum heldur engin þynnka. En aðallykillinn að þessari miklu list liggur þó líklega í persónusköpuninni. Hamlet, Jagó, Ríkharður þriðji, Júlía, Rósalind, Lér konungur… allt er þetta 400 ára gamla fólk í fullu fjöri. Það þarf ekki annað en draga tjaldið frá og þau lifna við.“ Ræðuna í heild sinni má lesa á vef Stundarinnar.

Tilnefndar bækur

Auk Óþellós Hallgríms voru eftirtaldar þýðingar tilnefndar til verðlaunanna að þessu sinni: Fjársjóðseyjan eftir Robert Louis Stevenson, í þýðingu Árna Óskarssonar. Ljóðasafnið Neyðarútgangur eftir Ewu Lipska, í þýðingu Olgu Holownia, Áslaugar Agnarsdóttur, Braga Ólafssonar, Magnúsar Sigurðssonar og Óskars Árna Óskarssonar. Ljóðasöfnin Uppljómanir og Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud, í þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar. Skáldsagan Verndargripur eftir Roberto Bolaño, í þýðingu Ófeigs Sigurðssonar.