ÆVAR ÞÓR Á 39 HÖFUNDA LISTA

Ævar Þór Benediktsson

Ævar Þór Benediktsson er einn þeirra 39 evrópsku barna- og ungmennabókahöfunda sem hefur verið boðið að birta sögu í safnriti er kemur út á vegum alþjóðlegu barnabókahátíðarinnar Hay Festival í Árósum í Danmörku á þessu ári. Þetta var tilkynnt á Bókamessunni í London í dag, þann 15. mars 2017. Höfundarnir eru allir undir fertugu og eru valdir af alþjóðlegri dómnefnd sem úrval upprennandi höfundar sem skrifa fyrir börn og unglinga í Evrópu.

Ævar Þór, best þekktur sem Ævar vísindamaður, er staddur í London til að veita viðurkenningunni móttöku og taka þátt í pallborðumræðum um barnabækur.

Í tilkynningu frá útgefanda Ævars, Forlaginu, segir að Ævar sé að vonum ánægður: „Þetta er mikill heiður og virkilega gaman að komast þarna á blað. Íslenskar barnabækur eru vel á pari við þær erlendu.”

Höfundarnir á listanum koma til með að vinna saman að metnaðarfullu verkefni fyrir hátíðina í Árósum, sem er menningarborg Evrópu 2017. Í október verður alþjóðlega barnabókahátíðin Hay Festival haldin þar í borg, en hún er angi af hinni þekktu Hay Festival í Wales, sem haldin verður í maí á þessu ári. Gefin verða út safnrit með sögum höfundanna 39 í vor og koma þau út bæði á dönsku og ensku.

Mynd af Hay Festival Aarhus

Í dómnefnd sátu þrír virtir barnabókahöfundar; Kim Fupz Åkeson frá Danmörku, Ana Cristina Herreros frá Spáni og Matt Haig frá Englandi. Höfundarnir sem valdir voru fengu það verkefni að skrifa sögu byggða á þemanu „ferðalag“ en sögurnar koma út í fyrrnefndum söfnum hjá Alma Books í Bretlandi og Gyldendal í Danmörku. Saga Ævars, ,,Bókaflóttinn mikli”, fjallar um einstaklega vaskan bókasafnsfræðing sem kemst í hann krappan.

Næsta bók Ævars kemur út nú í maí og verður sú þriðja í röðinni um bernskubrek Ævars vísindamanns. Hún ber nefnið Gestir utan úr geimnum. Bókin er ákveðinn lokahnykkur í þriðja Lestrarátaki Ævars en að vanda voru nöfn fimm heppinna krakka dregin úr þátttökupottinum og verða þau að persónum í bókinni. Að þessu sinni var það Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem dró úr pottinum. Aldrei hafa verið lesnar fleiri bækur í átakinu en í ár, rúmlega 63 þúsund talsins. Ævar hefur boðað að átakið verði haldið í fjórða sinn næsta vetur.

Vefur Hay Festival í Wales

Vefur Hay Festival í Árósum

HÖFUNDARNIR 39

Eftirtaldir höfundar munu eiga sögur í safnritunum:

 1. 1. Ævar Þór Benediktsson – Ísland
 2. 2. Alaine Agirre – Spánn
 3. 3. Aline Sax – Belgía
 4. 4. Ana Pessoa – Portúgal
 5. 5. Andri Antoniou – Kýpur
 6. 6. Anna Woltz – Holland
 7. 7. Annelise Heurtier – Frakkland
 8. 8. Annette Münch – Noregur
 9. 9. B. R. Collins – Bretland
 10. 10. Cathy Clement – Luxemborg
 11. 21. Katherine Rundell – Bretland
 12. 22. Katherine Woodfine – Bretland
 13. 23. Laura Dockrill – Bretland
 14. 24. Laura Gallego – Spánn
 15. 25. Ludovic Flamant – Belgía
 16. 26. Maria Parr – Noregur
 17. 27. Maria Turtschaninoff – Finnland
 18. 28. Michaela Holzinger – Austurríki
 19. 29. Nataly Elisabeth Savina – Lettland
 20. 30. Nina Elisabeth Grøntvedt – Noregur
 21. 11.Cornelia Travnicek – Austurríki
 22. 12. David Machado – Portúgal
 23. 13. Dy Plambeck – Danmörk
 24. 14. Elisabeth Steinkellner – Austurríki
 25. 15. Endre Lund Eriksen – Noregur
 26. 16. Finn-Ole Heinrich – Þýskaland
 27. 17. Frida Nilsson – Svíþjóð
 28. 18. Gideon Samson – Holland
 29. 19. Inna Manakhova – Rússland
 30. 20. Jana Šrámková – Tékkland
 31. 31. Peder Frederik Jensen – Danmörk
 32. 32. Salla Simukka – Finnland
 33. 33. Sandrine Kao – Frakkland
 34. 34. Sanne Munk Jensen – Danmörk
 35. 35. Sarah Crossan – Írland
 36. 36. Sarah Engell – Danmörk
 37. 37. Stefan Bachmann – Sviss
 38. 38. Stefanie de Velasco – Þýskaland
 39. 39. Victor Dixen – Frakkland