Lestrarhátíð 2013 - Ljóð í leiðinni

 Lestrarhátíð 2013 – Ljóð í leiðinni – var helguð Reykjavíkur- og borgarljóðum. Þar var borgin í brennidepli í öllum sínum fjölbreyttu myndum og sá aragrúi ljóða og söngtexta sem hafa verið skrifaðir um hana.

  Kápumynd af bókinni Ljóð í leiðinni Forlagið Meðgönguljóð, sem heitir nú Partus Press, var sérlegur samstarfsaðili að hátíðinni og gaf það út ljóðabókina Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Bókin inniheldur 27 ljóð um borgina eftir jafn mörg skáld. Flest ljóðin voru samin í tilefni hátíðarinnar, en einnig eru nokkur eldri ljóð í bókinni. Mörg okkar þekktari skálda eiga þarna ljóð, en einnig yngri og óþekktari skáld. Ármann Jakobsson ritar formála en ritstjórar eru þau Kári Tulinius og Valgerður Þóroddsdóttir.

 

 

 

Meðal þess sem boðið var upp á í október 2013 voru ljóð í strætó, en Strætó bs gekk til liðs við Bókmenntaborgina og gátu farþegar notið ljóðskreyttra vagna í mánuðinum. Einnig voru brot úr ljóðum utan á vögnunum og á strætóskýlum.

Veggspjaldasýningin Ljóðið ratar til hinna, sem ljóðskáldið Dagur Hjartarson hafði veg og vanda að, var sett upp víðs vegar um borginaHana prýddu borgarljóð eftir fjölda skálda.

Einnig var pólsk-íslenska ljóðaverkefnið ORT hluti af hátíðinni.  Pólsk ljóð í íslenskum þýðingum og íslensk ljóð í pólskum þýðingum voru þar í brennidepli.

Í lok mánaðarins blésu Bókmenntaborgin og Félag tónskálda og textahöfunda til tónleika í Hörpu í tilefni Lestrarhátíðar og 30 ára afmælis félagsins þar sem orðlistin var í öndvegi. Einnig héldu þessir sömu aðilar málþing sömu helgi þar sem orðlistin var í forgrunni.

Helstu samstarfsaðilar Bókmenntaborgarinnar að Lestrarhátíð 2013 - Ljóð í leiðinni voru: Arion bankiBorgarbókasafn ReykjavíkurMeðgönguljóðeBækurStrætó bs og pólsk-íslenska ljóðaverkefnið ORT.