Lestrarhátíð 2012 - Vögguvísa

Fyrsta Lestrarhátíð í Bókmenntaborg var haldin í október 2012. Skáldsagan Vögguvísa eftir Elías Mar var í brennidepli  á hátíðinni en þessi skemmtilega saga frá Reykjavík eftirstríðsáranna er ein af fyrstu Reykjavíkursögunum og sú fyrsta sem lýsir lífi utangarðsunglinga á Íslandi. Þar er tónlist, tíska, kvikmyndir og tungumál æskufólks hinnar ungu borgar alltumlykjandi. Í nýrri útgáfu sem bókaforlagið Lesstofan gaf út fyrir hátíðina fylgir merkilegt slangurorðasafn sem Elías safnaði þegar hann skrifaði bókina. Bókin var gefin út í pappírsformi, sem rafbók og hljóðbók.

Í tilefni hátíðarinnar var boðið upp á dagskrá sem tileinkuð var Vögguvísu og Elíasi Mar, meðal annars bókmenntagöngur um söguslóðirnar með Hjálmari Sveinssyni, ljósmyndasýningu um höfundinn á Borgarbókasafni Reykjavíkur, maraþonlestur framhaldsskólanema og málþing og sýningu í Þjóðarbókhlöðu. Skólar á öllum stigum tóku þátt í hátíðinni og var meðal annars efnt til Lestrarviku í Vesturbænum í tilefni hennar.

Ljósmynd af Einar Erni afhjúpa Bókmenntamerkingu við Adlon, Aðalstræti 6

Einar Örn Benediktsson, formaður Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur afhjúpaði bókmenntaskjöld til heiðurs Elíasi í Aðalstræti, en honum fylgir rafrænt ítarefni sem nálgast má hér á vefnum undir Bókmenntamerkingar. Meðal efnis á vefnum er upplestur úr Vögguvísu, stutt vídeó með Bergi Ebba þar sem hann leggur út af slangri í bókinni og upptaka af laginu Vögguvísu (Chi baba) frá 2012 með söngkonunni Fríðu Dís Guðmundsdóttur.

Stuttar vefstiklur með grínistunum Bergi Ebba, Dóra DNA, Önnu Svövu Knútsdóttur og Sögu Garðarsdóttur sem gerðar voru í tilefni hátíðarinnar eru aðgengileg hér á vef Bókmenntaborgarinnar. Hugleikur Dagsson grúskaði í orðasafni Elíasar Marar og teiknaði myndir innblásnar af því.