Ég elska máva

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Anton verður furðu lostinn þegar hvít dúfa með bréf bundið um fótinn flýgur inn um gluggann hans – og ansi svekktur þegar hún hverfur út í nóttina aftur. Eftir þetta gerist ýmislegt furðulegt í lífi Antons og Pandóru, bestu vinkonu hans. Getur verið að Hallfreður húsvörður sendi fólki bréf og bækur þótt hann sé dáinn? Er hægt að fara í ferðalag á nóttunni, jafnvel sofandi? Af hverju má ekki mæta með rottu í skólann? Hvernig er hægt að hlusta á rödd hjartans?

Úr bókinni:

Anton og Pandóra löbbuðu út af skólalóðinni í hádegishléinu hvort með sína samlokuna en skiptu á milli sín vatnsflösku. Að hans frumkvæði smurði móðir hans ævinlega tvær samlokur á morgnana af því Pandóra gaf sér sjaldan tíma til að útbúa nesti árla dags. Hún átti nóg með að þagga niður í vekjaraklukkunni og kom sér í fötin.

„Lætin út af einni rottu,“ sagði Pandóra og sparkaði í stein á gangstéttinni, „það má aldrei neitt í þessum myglaða skóla.“

„Nema reikna og skrifa ritgerðir,“ sagði Anton og hrósaði henni enn og aftur fyrir frásögnina af Jóhönnu af Örk en Pandóra lét sem hún heyrði það ekki.

„Af hverju urðu ekki allir skíthræddir þegar ég kom með hunangsfluguna, hún var næstum því eins stór og mús og í brjáluðu skapi.“

„Af því hún var í glerkrukku, Pandóra, rottan var laus.“

„Hún var dauð og … og … meira að segja steindauð.“

„Flestir eru hræddir við rottur,“ sagði Anton.

„Stundum skil ég ekki fólk,“ sagði Pandóra, dæsti og leit til himins. „ég held að það sé auðveldara að leysa dulmál af því fólk segir sjaldnast það sem það meinar.“ Hún andvarpaði aftur. „Ég skil ekki af hverju ég er ekki mávur því ég elska máva, eða haförn eða bara kría. Mig langar að vífa um himininn, sleikja öldurnar, horfa yfir mannfólkið, frjáls og … og finna hvernig vindurinn lyftir undir vængina þegar ég svíf og svíf og … stundum líður mér eins og Beethoven, ég heyri fugla syngja í sálinni.“

(24-5)