Samstarf

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO styður við verkefni sem snúa að nýrækt og grasrótarstarfi á sviði orðlista í Reykjavík í víðum skilningi. Skáld og aðrir listamenn, grasrótarforlög og félagasamtök geta sóst eftir stuðningi og / eða samstarfi við Bókmenntaborgina til að koma hugmyndum í framkvæmd, hvort sem þær felast í að koma á fót viðburðum fyrir almenning, smiðjum, skólatengdum verkefnum, þjónustu við ferðamenn eða öðrum verkefnum á þessu sviði. Ekki er stutt við útgáfu einstakra bókmenntaverka nema í tengslum við hátíðir eða aðra viðburði sem Bókmenntaborgin á aðild að, svo sem Lestrarhátíð í Bókmenntaborg.

Áherslur sjóðsins eru breytilegar milli ára í samræmi við þau verkefni sem eru í brennidepli hverju sinni. Árið 2014 er áhersla lögð á ritlist og þjónustu við ferðamenn, en stuðningur einskorðast þó ekki við slík verkefni. Tekið er við umsóknum allt árið. Þær eru lagðar fyrir stjórn Bókmenntaborgarinnar og berst umsækjanda svar eigi síðar en 8 vikum eftir að umsókn er skilað, nema yfir sumarmánuðina. Skila skal greinargóðri lýsingu á verkefninu, tíma- og kostnaðaráætlun. Hljóti verkefni stuðning þarf að skila greinargerð um framkvæmd þess að verkefninu loknu. Nánari upplýsingar veitir Kristín Viðarsdóttir, verkefnastjóri: kristin.vidarsdottir@reykjavik.is. Umsóknir skulu berast Bókmenntaborginni á ofangreint netfang.

ÞÝSKIR GESTARITHÖFUNDAR

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO á í samstarfi við Goethe stofnun í Kaupmannahöfn, sem meðal annars felst í móttöku þýskra rithöfunda sem koma til nokkurra vikna dvalar á Íslandi. Fyrstu höfundarnir sem komu hingað á vegum Goethe stofnunnar dvöldu og störfuðu í Reykjavík vorið og sumarið 2012. Það voru þeir Volker Altwasser og Finn-Ole Heinrich. 
 
Sjá viðtal við Finn-Ole Heinrich um dvöl hans í Reykjavík (á þýsku).
 
 
Vorið og sumarið 2013 munu Dirk Schwieger og  teymið Eva Kretschmer & Ulrike Olms dvelja í Reykjavík, hvort um sig í sex vikur.

ICORN

Reykjavík er síðan í mars 2011 skjólborg, eða International City of Refuge; griðastaður fyrir rithöfunda og skáld sem eru flóttamenn frá sínu heimalandi. Fyrsta  skáldið sem kom til Reykjavíkur undir merkjum skjólborgarinnar er Mazen Maarouf sem er af palestínskum uppruna og kom hann til landsins í nóvember 2011. Mazen er fæddur í Beirut árið 1978. Hann er ljóðskáld, rithöfundur, blaðamaður og gagnrýnandi og hefur unnið fyrir nokkur dagblöð í Líbanon jafnt sem erlend dagblöð. Maarouf mun dvelja hér í tvö ár.

 

HEIMSÞING PEN

Heimsþing PEN verður haldið í Hörpu dagana 9. – 12. september 2013. Bókmenntaborgin Reykjavík undirbýr þingið í samvinnu við PEN á Íslandi, PEN International, Hörpu og fleiri. Hluti dagskrárinnar verður opin almenningi og verður hún auglýst hér á vefnum þegar nær dregur. Einnig er haft samstarf við Bókmenntahátíð í Reykjavík, en hún fer fram dagana 11. – 15. september 2013.